PEACE

sunnudagur, apríl 20, 2008

HÓ HÓ HÓ

Jæja þá er yngri daman orðin mánaðargömul - tíminn flýgur :) Hér fyrir ofan er mynd af Hafdísi Önju til vinstri og Karítas Evu til hægri, báðar á aldrinum 2-3ja vikna. Mér finnst þær alveg eins - allavega þennan fyrsta mánuð ævinnar :o) Spennandi að sjá hvað svo verður.

Litla daman er alltaf jafn góð, þarf ekkert að hafa fyrir henni. Aðal munurinn á henni og Önjunni er sá að hún kúkar 7 sinnum á dag og það gúlpast upp úr henni eftir hverja gjöf en Hafdís Anja kúkaði 1 sinni í viku og ældi svo til aldrei. Ég geri ekki annað en að þvo gubbubleyjur og gubbusmekki og svo gubbuföt þegar smekkurinn og bleyjan ná ekki að dekka gubbuna! En það er nú minnsta málið - ekki eins og ég sé tímabundin :)

Við Gunni erum í keppni. Það okkar sem missir 5kg á undan vinnur. Ég byrjaði þessa keppni aðeins of seint.. fyrsta mánuðinn runnu meðgöngukílóin nokkuð hratt af en ég held það sé farið að hægjast ansi vel á..! Gunnar er hinsvegar í þessu af fullum krafti og nú hrynja kílóin af honum - og 4 dögum eftir að keppnin hófst lítur út fyrir að hann rústi þessu...! Ég hef þó ekki gefið upp alla von q:o)

Ég hef reynt að vera dugleg að fara út að labba, farið nokkrum sinnum með vagninn en svo stundum bara hlaupið út þegar ég er í stuði og tekið 30-45 min göngutúr um hverfið. Ég sakna Bryggjuhverfisins þegar ég geng hér um hverfið, hér svo mikið vera að byggja ennþá (finnst það leiðinlegt tímabil) en ég flutti auðvitað úr Bryggjuhverfinu þegar það var loks tilbúið! Mér fannst líka Bryggjuhverfið æðislegt hverfi, svo kósý eitthvað en þetta hverfi hefur það þó fram yfir Bryggjuhverfið að það er mikið barnvænna - og það skiptir öllu þegar maður er kominn með 2 kríli :) Gönguleiðirnar hérna eru líka æðislegar þegar maður nennir í alvöru göngutúr :) Við Rebekka erum búnar að taka einn góðan meðfram Rauðavatni og síðan annan upp í Heiðmörk og báðar leiðir eru bara yndislegar.