PEACE

föstudagur, október 19, 2007

MEÐGANGAN

Varúð - meðgöngukerlingarblogg...

Ég er ekki ein af þeim sem upplifi meðgönguna sem besta tíma ævinnar. Fólk rekur oft upp stór augu þegar ég viðurkenni það.... en svona er þetta misjafnt. Ekki misskilja mig samt, þetta er svo margfalt þess virði, það er ekki það en það eru svo ótrúlega margar konur sem tala um þetta sem BESTA tíma sem þær hafa upplifað - svoleiðis er það bara ekki alveg hjá mér.

Ógleðin og hrikaleg vanlíðan fyrstu vikurnar er bara með því verra sem ég hef upplifað. Svo koma nokkrar góðar vikur (sem eru akkúrat núna :) en svo kemur þreytan, svefnleysið, hvala-fílingurinn osfrv... og það er ef maður er heppin því margar finna brjóstsviða, grindargliðnun, sinardrátt ofl ofl en ég hef blessunarlega sloppið við það 7-9-13 :)

Þó koma vissulega tímar sem eru yndislegir :) Að finna hreyfingarnar, að fara í skoðun og ég tala nú ekki um sónar - það gerir þetta svo raunverulegt :)

Ég held samt að það sem mér finnst erfiðast sé óvissan, ég þoli mjög illa óvissu. Maður getur ekki verið 100% viss að þetta gangi allt upp eins og það á að gera og ég er einhvernveginn alltaf með það á bakvið eyrað. Hugsa til framtíðarinnar og barnsins en hugsa alltaf um leið "ef allt gengur upp".
Þegar ég gekk með Hafdísi Önju leyfði ég mér lítið að hlakka til, ég bara trúði ekki að ég yrði svo heppin að þetta myndi allt ganga að óskum. En núna fær daman mín að vera með í meðgönguferlinu og þá er þetta svo mikið meira rætt, talað um hvernig þetta verður, hvað hún fær að gera og hún er með miljón spurningar um þetta allt saman og er svo spennt litla skottið - sem og við öll :) Besti tíminn sem ég hef upplifað eru einmitt stundirnar EFTIR að krílið kemur í heiminn!

Nú er ég loks komin með óléttubumbu en hún hefur eiginlega líkst meira svona skvapbumbu hingað til og hefur mikið verið spurt mig hvort ég sé viss um að ég sé ólétt... ólíkt fyrstu meðgöngu þar sem ég komst ekki í fötin mín eftir 12 viku :) Ekki hélt ég að ég myndi bíða óþreyjufull eftir bumbunni en hún er ólíkt fallegri en skvapið - og nú er bara að vona að afturendinn, lærin og mjaðmirnar hagi sér betur en á síðustu meðgöngu muhahaha :)