PEACE

miðvikudagur, október 18, 2006

Anusha Golla

Þetta er nafnið á litlu stelpunni sem við Gunni styrkjum úti á Indlandi.

Ég var að horfa á Opruh í kvöld og meðal gesta hjá henni var fyrsti kvenforseti sem kjörin hefur verið í Afríku en hún var kjörin forseti í Líberíu í janúar á þessu ári. Það voru sýndar myndir frá Líberíu sem voru vægast sagt átakanlegar en þar hefur ríkt stríð í mörg mörg ár og Jesús það voru bara lík út um allt af mönnum, konum og börnum :( Ég vona að þessi fyrsti kvenforseti Afríku muni láta vel að sér kveða, ég er alveg viss um að ef konur væru meira við völd þá væri minna um stríð. Við bara leysum ekki máin á þennan hátt - með byssum og drápum. Erum jú vissulega oft grimmar og hefnigjarnar en málin eru þó ekki leyst með ofbeldi.

Allavega, þegar ég horfði á líkin af börnunum, á börnin sem eru á lífi en fá enga mentun, á börnin sem vantaði útlimi á vegna þess að þau höfðu orðið fyrir sprengju osfrv. þá lét ég loks verða af því að skrá okkur sem styrktarforeldra en það hefur staðið til lengi. Ég veit ekki afhverju ég var ekki löngu búin að því... einhver slugsaháttur en það virðist vera of mikið mál að þurfa að setjast niður og finna þetta á netinu! Ef það hefði verið hringt í mig hefði ég fyrir löööngu verið búin að þessu - ég segi já við ALLA símasölumenn - og Gunnar líka, sem er eiginlega ekki nógu gott.. en það er önnur saga.

Jæja ég fann umræðu á barnalandi (hvar annarsstaðar) þar sem gefin er upp slóð þar sem maður getur fundið barn til að styrkja, hún er hérna: http://www.abc.is/ABChjalparstarf/Stydjabarn/?

Um leið og maður kemur inn á síðuna er þar mynd af barni sem búið er að velja fyrir mann. Síðan getur maður flett og skoðað fleiri eða sett í leitarskilyrðin að hverju maður leitar (kyn, aldur og land). Ég gat ekki fyrir mitt litla líf flett framhjá stúlkunni sem hafði verið fundin fyrir mig og blasti þarna við mér. Hafði hugsað mér að finna stelpu á sama aldri og Hafdís Anja en ég táraðist bara þegar ég sá myndina og úff hvernig er hægt að fletta áfram eins og maður sé að skoða fatakatalog...? Stelpan er gullfalleg 9 ára dama (setti mynd í albúmið hjá Önju) sem ég mun styðja með læknishjálp, í gegnum skóla og útvega henni eina heita máltíð á dag. Ég hefði viljað hafa þær 3 en það var ekki valkostur :'( Síðan fæ ég bréf og myndir frá henni og ég get ekki beðið :) Maður getur líka sent gjafir út til barnsins eða sent pening og þau kaupa sér þær gjafir sem þau vilja og svo fær maður mynd af barninu með gjöfina sem það keypti. Þetta mun henta okkur hérna í Básbryggjunni afar vel þar sem ég hef einstaklega gaman af að kaupa gjafir handa henni Hafdísi Önju minni en hún er nú þegar orðin ofdekruð og á svo til allt. Allavega það mikið að hún suðar aldrei um neitt - ég tek því þannig að hún eigi þá allt sem hana langar í :) Nú get ég glatt annað lítið hjarta og ég get ekki beðið eftir að fara og velja handa henni jólagjöf :)

Mæli með að þið skráið ykkur gott fólk, þetta kostar skitnar 1990 kr. á mánuði og reyndar enn minna í einhverjum tilvikum las ég á barnalandinu góða (fer eftir landinu sem barnið býr í held ég).